Heim flag

Skráning er hafin

Skráning í Laugavegshlaupið 2018 sem fram fer laugardaginn 14.júlí er hafin hér á marathon.is. Skráning verður opin til 30.júní nema fullbókað verði í hlaupið fyrir þann tíma. Árið 2017 varð uppselt í hlaupið mánuði eftir að skráning hófst og því er mælt með að þau sem stefna á þátttöku skrái sig fyrr en síðar.

Upplýsingar um verð, skilmála, tímatakmörk o.fl. eru aðgengilegar í valmyndinni hér að ofan.

Hlauparar sem ekki hafa tekið þátt í Laugavegshlaupinu eru hvattir til að lesa greinina "Er Laugavegshlaupið fyrir þig?". Þar er farið yfir þau skilyrði sem þátttakendur þurfa að uppfylla í þessu krefjandi hlaupi.

Smelltu hér til að skrá þig.

 F3B9680-small

Skráning hefst 12.janúar

Skráning í Laugavegshlaupið sem fram fer laugardaginn 14.júlí 2018 hefst föstudaginn 12.janúar kl.12:00. Árið 2017 varð uppselt í hlaupið mánuði eftir að skráning hófst og því er mælt með að þau sem stefna á þátttöku skrái sig fyrr en síðar. Upplýsingar um verð og skilmála fyrir árið í ár eru nú aðgengilegar í valstikunni hér að ofan.

Hvetjum alla til að kynna sér vel tímatakmörk hlaupsins og skilyrði fyrir þátttöku.

 F3B0769-small

Laugavegshlaupið

Laugavegshlaupið er 55 kílómetra langt utanvegahlaup sem haldið verður í 22. sinn þann 14. júlí 2018. Skráning í hlaupið hefst í janúar 2018.

Hlaupið er fyrir mjög vana hlaupara 18 ára og eldri en enginn ætti að skrá sig fyrr en hann er búinn að kynna sér vel skilyrði fyrir þátttöku.

Laugavegurinn tengir saman Landmannalaugar og Þórsmörk á sunnanverðu hálendi Íslands, tvær náttúruperlur. Staðsetningin gerir það að verkum að Laugavegurinn er einungis þjónustaður í nokkrar vikur á ári.

Í hugum margra hlaupara er Laugavegshlaupið skemmtilegasta hlaupið á Íslandi. Á þessari krefjandi leið verða hlauparar vitni að ótrúlegri náttúrufegurð. Göngugarpar eru venjulega 4 daga á leið sinni um Laugaveginn. Undirlendið er fjölbreytt þar sem hlaupið er á sandi og möl, í grasi og snjó, á ís, yfir ár og læki.

Áhugaverðir tenglar

Myndir

Myndbönd

Greinar

Er Laugavegshlaupið fyrir þig?

Þorbergur og Young sigruðu Laugavegshlaupið 2017

Sigurvegarar Laugavegshlaupsins 2017 eru þau Þorbergur Ingi Jónsson og Arden Young frá Kanada. Töluvert mikill vindur var á móti hlaupurunum á leiðinni í dag sem gerði mörgum erfitt fyrir en að öðru leiti góðar aðstæður.

Fyrstu þrír karlar:

1. Þorbergur Ingi Jónsson, Ísland 4:13:25
2. Germain Grangier, Frakkland, 4:22:17
3. Benoit Branger, Frakkland, 4:44:15

Tími Þorbergs er þriðji besti tíminn sem náðst hefur í hlaupinu í karlaflokki frá upphafi en hann á sjálfur besta og næst besta tímann. Þetta var fjórði sigur Þorbergs í Laugavegshlaupinu og jafnframt í fjórða sinn sem hann tekur þátt. Þorbergur og Germain hlupu saman stóran hluta leiðarinnar en Þorbergur fór framúr eftir um 40 km og hélt forystunni til enda.

Fyrstu þrjár konur:

1. Arden Young, Kanada, 5:12:01
2. Elísabet Margeirsdóttir, Ísland, 5:28:15
3. Stina Höglund, Svíþjóð, 5:37:42

Arden Young kom í mark á þriðja besta tíma sem náðst hefur í kvennaflokki. Elísabet Margeirsdóttir sem var í 2.sæti og fyrsta íslenska konan í mark var að hlaupa sitt 8. Laugavegshlaup og bætti besta tímann sinn um tæpar 6 mínútur. 

Smelltu hér til að skoða heildrúrslit og hér til að skoða myndir.

1-karl-kona

Metfjöldi hleypur Laugaveginn

Laugavegshlaupið fer fram í 21. sinn laugardaginn 15.júlí 2017. Alls eru 512 hlauparar skráðir til keppni, 179 konur og 333 karlar. Aldrei hafa fleiri verið skráðir til þátttöku í Laugavegshlaupinu en nú. Íslenskir þátttakendur eru 249 talsins og frá öðrum löndum 263. Fjölmennastir erlendu gestanna eru Bandaríkjamenn en þeir eru 87 skráðir, þá Bretar sem eru 25 talsins og þriðja fjölmennasta þjóðin eru Þjóðverjar sem eru 24 skráðir til þátttöku. Þátttakendur í hlaupinu eru af 32 mismunandi þjóðernum.

Hlaupið hefst í Landmannlaugum kl.9:00 og lýkur í Húsadal í Þórsmörk. Eins og margir vita er Laugavegurinn ein fjölfarnasta og vinsælasta gönguleiðin um íslensk öræfi. Venjan er að ganga leiðina á fjórum dögum en met hlauptími á þessari 55 km leið í Laugavegshlaupi er 3 klukkustundir og 59 mínútur í karlaflokki og 5 klukkustundir í kvennaflokki. Tímamörk eru í hlaupinu og þurfa hlauparar að vera komnir í Álftavatn (22 km) á innan við 4 klst og í Emstrur (34 km) á innan við 6 klst. Það er því aðeins fyrir vel æfða hlaupara að taka þátt í þessari miklu þolraun.

Rúta á vegum Kynnisferða býður uppá ferðir yfir Krossá í tengslum við Laugavegshlaupið. Rútan fer frá afleggjaranum í Húsadal laugardaginn 15.júli á hálftíma fresti milli kl.12:00 og 15:00. Að hlaupi loknu fer rútan til baka kl. 17:30, 18:00 og 20:40. Gjaldið er 1.000 kr. fyrir ferð, 500 kr fyrir 12-15 ára en frítt fyrir 11 ára og yngri (fædd 2006). Ekki þarf að bóka í þessar ferðir fyrirfram og er gjaldið greitt á staðnum. Einnig er hægt að kaupa rútuferðir frá Seljalandsfossi og Hvolsvelli inn í Húsadal og til baka hjá Kynnisferðum. Slíkar ferðir gætu hentað áhorfendum sem ekki treysta sér eða sínu farartæki til að keyra malarveginn inn í Þórsmörk. Tímasetningar á ferðum Kynnisferða til og frá Þórsmörk og verð má finna hér á heimasíðu Kynnisferða.

Fregnir af fyrstu hlaupurum verða birtar á Facebook síðu hlaupsins um leið og þær liggja fyrir. Heildarúrslit verða birt hér á marathon.is að hlaupi loknu eða um kl.18.

Nánari upplýsingar:

Dagskrá hlaupdags
Nafnalisti þátttakenda
Rútuferðir
Facebook
Instagram

Andri-lv-1066 copy

Uppfærð veðurspá

Veðurvaktin hefur sent okkur uppfærða veðurspá fyrir hlaupaleiðina á morgun. Breytingar frá í gær eru einkum þær að skúrir eða rigning verður allt frá upphafi hlaups og eins er nú spáð lítið eitt ákveðnari SV-átt sem lengst af verður mótvindur á hlaupaleiðinni. Þetta er þó alls ekki vont veður eða verulega óhagstætt segir veðurfræðingur. Smellið hér til að skoða spána á korti.

vedurspa-2017-7-14

Veðurspá

Veðurvaktin hefur gert veðurspá fyrir Laugavegshlaupið 2017 og er von á uppfærðri spá frá þeim aftur á morgun.

Samkvæmt spá Veðurvaktarinnar lítur út fyrir sunnangolu, skáhalt á móti til að byrja með og allt að 8 m/s í Hrafntinnuskeri. Markvert hægari vindur þegar komið verður neðar en þá suðvestlægari lengst af frekar á móti á hlaupaleiðinni. Þurrt verður í Landmannalaugum, en með aukinni hæð verður dálítil rigning. Skúraleiðingar þegar neðar dregur og að mestu skýjað, þó sólarglennur séu ekki útilokaðar. Smelltu hér til að skoða veðurspána á korti.

Veður á þessu svæði er síbreytilegt og því mikilvægt að allir hafi tiltækan þann klæðnað sem áður var búið að ráðleggja. Einnig er mikilvægt að hlauparar láti tösku með hlýjum fatnaði til að klæðast eftir hlaup í rútu hlaupsins í Landamannalaugum sem verður flutt inní Þórsmörk og þeir finna í farangurstjaldi á marksvæði. Sjá nánar um farangur hér.

Rétt er að ítreka að þó að drykkjarstöðvar séu á leiðinni er nauðsynlegt að hver og einn hlaupari hafi meðferðis drykkjarbrúsa og orkugel eða aðra næringu. Til að losna við klístur og rusl sem fylgir gelbréfum er ráðlagt að setja innihald gelbréfanna í brúsa. Það hefur reynst hlaupurum vel að fá sér einn og einn sopa af geli alla leiðina. Auk þess hefur reynst vel að hafa meðferðis salttöflur eða eina teskeið af salti í plastpoka sem hægt er að fá sér nokkur korn af og skola niður með vatni. Drykkjarstöðvar á hlaupaleiðinni eru í Hrafntinnuskeri, við Álftavatn, á söndum við innri Emstruá, í Emstrum, við Ljósá og við Þröngá.

Óheimilt er með öllu að kasta rusli frá sér á leiðinni. Hvetjum alla til að leggja sitt að mörkum við að skilja við hlaupaleiðina eins og enginn hafi farið þar um. Hver og einn þarf að passa uppá að missa ekki frá sér sín gelbréf og drykkjarmál og aðrar umbúðir utan af mat, plástrum o.fl. Hægt er að losa sig við rusl á drykkjarstöðvum og á marksvæðinu í Þórsmörk.

vedurspa-2017-7-13

Um Íþróttabandalag Reykjavíkur

Íþróttabandalag Reykjavíkur (ÍBR) var stofnað 1944 og eru samtök íþróttafélaganna í Reykjavík. Árlega hefur Íþróttabandalagið umsjón með sex stórum íþróttaviðburðum: Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka í ágúst, Laugavegshlaupið í júlí, WOW Tour of Reykjavik og Miðnæturhlaup Suzuki í júní, WOW Northern Lights Run í febrúar og WOW Reykjavik International Games í janúar.