Heim flag

Metum í áheitasöfnun fagnað

Uppskeruhátíð áheitasöfnunar Reykjavíkurmaraþons 2014 fór fram í gær. Aðalstyrktaraðili hlaupsins, Íslandsbanki, bauð til hátíðarinnar í höfuðstöðvum sínum á Kirkjusandi.

Á hátíðinni komu saman fulltrúar góðgerðafélaga, hlauparar, starfsmenn og stuðningsaðilar til að fagna góðum árangri áheitasöfnunar Reykjavíkurmaraþons Íslandsbanka sem fram fór á vefnum hlaupastyrkur.is. Í ár söfnuðu hlauparar 85.634.595 krónum til 163 góðgerðafélaga. Þetta er 18% hærri upphæð en safnaðist í fyrra og nýtt met í áheitasöfnun hlaupsins. Heildarupphæð áheita sem hafa safnast í tengslum við Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka frá því áheitasöfnun hófst árið 2006 nálgast nú 400 milljónir. 

Þau félög sem safnaðist mest fyrir í ár voru Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna 5,6 milljónir, Styrktarsjóður Heiðu Hannesar 4 milljónir og Hringurinn 3,7 milljónir. 110 af þeim 167 félögum sem tóku þátt í söfnuninni fengu meira en 100.000 krónur í sinn hlut, 26 félög fengu meira en milljón.

Þeir hlauparar og boðhlaupslið sem söfnuðu mest fengu viðurkenningu á áheitahátíðinni í gær. Þá var einnig veitt viðurkenning fyrir flest söfnuð áheit en það var Aron Guðmundsson sem safnaði flestum áheitum, 341 talsins. Aldrei hefur einstaklingur í sögu áheitasöfnunarinnar fengið eins mörg áheit og Aron fékk í ár en hann safnaði fyrir MND félagið á Íslandi.

Ingvar Sverrisson, formaður Íþróttabandalags Reykjavíkur sem sér um framkvæmd Reykjavíkurmaraþons, stjórnaði stuttri dagskrá uppskeruhátíðarinnar. Til máls tóku einnig Birna Einarsdóttir bankastjóri Íslandsbanka, Snæbjörn Ragnarsson, einn af Maraþonmönnunum úr Skálmöld, og Rósa Guðbjartsdóttir, formaður Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna, sem er eitt af góðgerðafélögunum sem tóku þátt í áheitasöfnuninni.

Í lok uppskeruhátíðarinnar fengu fulltrúar góðgerðafélaganna upplýsingar um þær fjárhæðir sem til þeirra söfnuðust. Áheitin verða greidd inn á reikninga góðgerðafélaganna þegar safnað fé hefur skilað sér frá síma- og kortafyrirtækjum, væntanlega í byrjun nóvember. Smellið hér til að skoða lista yfir öll góðgerðafélögin sem upphæðir söfnuðust til og hér til að skoða helstu tölfræði söfnunarinnar á hlaupastyrkur.is.

Uppskeruhátíð áheitasöfnunar

hlaupastyrkur-lokastada

Miðvikudaginn 8.október næstkomandi kl.17:00-18:00 verður haldin uppskeruhátíð áheitasöfnunar Reykjavíkurmaraþons Íslandsbanka 2014. Það er Íslandsbanki, aðal samstarfsaðili hlaupsins, sem býður góðgerðafélögum, hlaupurum og skipuleggjendum hlaupsins í höfuðstöðvar sínar á Kirkjusandi.

Markmiðið með hátíðinni er að gefa þessum aðilum færi á að hittast og fagna góðum árangri saman. Farið verður yfir tölfræði áheitasöfnunarinnar og fá félögin með sér heim upplýsingar um söfnuð áheit og uppgjör. Boðið verður upp á léttar veitingar.

Þau sem ætla að mæta eru beðin um að merkja við sig hér á facebook eða senda póst á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. .

Takk fyrir daginn

Vel heppnuðu Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka 2014 er lokið. Frábært hlaupaveður var í Reykjavík í dag og voru hlauparar í skýjunum með aðstæður.

Reykjavíkurmaraþonið fór fram í 31.sinn í dag og hafa aldrei fleiri tekið þátt en 15.552 skráðu sig til þátttöku. Eftirfarandi er endanlegur fjöldi skráninga í hverja vegalengd:

Maraþon 1.044
Hálft maraþon 2.501
10 km hlaup 7.000
Boðhlaup 114
3 km skemmtiskokk 1.914
Latabæjarhlaup 2.979

Heildarúrslit hlaupsins má finna hér og myndir af hressum þátttakendum hér.

Áheitasöfnun hlaupsins á hlaupastyrkur.is verður opin til miðnættis á mánudag en þegar hefur verið slegið met í söfnuninni. Safnast um 80 milljónir til góðra málefna en um 4.530 manns eru að safna áheitum á vefnum fyrir 167 góðgerðafélög.

Reykjavíkurmaraþon þakkar hlaupurum, starfsmönnum, samstarfsaðilum og áhorfendum kærlega fyrir góðan dag.

rm2014

Til hamingju með daginn

Í dag munu meira en 15 þúsund manns taka þátt í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka 2014 sem í ár fer fram í 31.sinn. Aldrei hafa fleiri skráð sig til þátttöku.

Við vonum að allir, bæði þátttakendur og áhorfendur, muni eiga góðan dag. Eftirfarandi eru slóðir á upplýsingar sem flestir eru að leita eftir á hlaupdag.

Dagskrá dagsins

Hvatningarkort - góðir hvatningarstaðir

Truflun á umferð

Lifandi úrslit

Upplýsingamiðstöð hlaupsins er í Menntaskólanum í Reykjavík á hlaupdag en þar opnar kl.7. Þar geta hlauparar sem þurfa aðstoð með skráningarmál o.fl. fengið úrslausn sinna mála. 

Skráning og afhending gagna fyrir þátttakendur í Latabæjarhlaupinu fer fram í tjaldi í suður enda Hljómskálagarðsins.

Skráning á hlaupdag

Á morgun laugardaginn 23.ágúst fer Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka fram í 31.sinn. Smellið hér til að skoða dagskrá dagsins.

Flestir skráðir þátttakendur sóttu skráningargögn sín í Laugardalshöllina í gær og í dag. Þau sem ekki náðu að sækja gögnin geta gert það á hlaupdag og einnig verður hægt að skrá sig á meðan hlaupnúmer endast.

Skráning og afhending gagna fer fram í Menntaskólanum í Reykjavík. Opið verður frá kl.7-15. Skráning og afhending gagna í Latabæjarhlaupinu fer fram í skráningartjaldi í suður enda Hljómskálagarðsins frá kl.12.

laekjargata custom

Hraðastjórar

Í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka 2014 býðst hlaupurum í 10 km, hálfmaraþoni og maraþoni aðstoð við að ná hraðamarkmiðum sínum. Hraðastjórar munu hlaupa áður nefndar vegalengdir á ákveðnum jöfnum hraða. Þeir verða í merktum vestum og með blöðrur til að hlauparar geti fylgt þeim.

Fyrst var boðið upp á hraðastjóra í Reykjavíkurmaraþoninu 2009, þá í 10 km hlaupinu. Mældist þessi nýjung mjög vel fyrir og var leikurinn því endurtekinn árið 2010, bæði í hálfu maraþoni og 10 km hlaupi. Síðastliðin þrjú ár hafa svo einnig verið hraðastjórar í maraþoni. 

Hraðastjórarnir sem eru allir vanir hlauparar munu hlaupa á eftirtöldum tímum:

10 km hlaup

40 mínútur Birgir Sævarsson og Friðleifur Friðleifsson
45 mínútur    Davíð Erik Mollberg og Þorsteinn Magnússon
50 mínútur Sveinn Ásgeirsson og Ásdís Söebeck Kristjánsdóttir
55 mínútur Ásta Laufey Aðalsteinsdóttir og Sif Jónsdóttir
60 mínútur Hlín Magnúsdóttir og Sif Arnarsdóttir
65 mínútur Karl Gísli Gíslason og Jóhanna Eiríksdóttir

Hálfmaraþon

1 klst og 40 mínútur Ósk Vilhjálmsdóttir og Gísli Páll Reynisson
1 klst og 45 mínútur    Ágúst Kristinsson og Arnar Aðalgeirsson
1 klst og 50 mínútur Sigrún Kristín Barkardóttir og Alma María Rögnvaldsdóttir
1 klst og 55 mínútur Pétur Valdimarsson og Árni Gústafsson
2 klst Sigríður Gísladóttir og Þóra Björg Magnúsdóttir
2 klst og 5 mínútur Sigrún Erlendsdóttir og Guðbjörg Margrét Björnsdóttir

Maraþon

4 klst    Sigurjón Sigurbjörnsson
staðsettur í svarta hólfinu með 2 klst hálfmaraþonhlaupurunum
merktur með 4 klst blöðru

rm2011 myndir

 

Skráningarhátíð í Laugardalshöll

Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka fer fram í 31. sinn næsta laugardag þann 23.ágúst. Forskráningu í hlaupið er nú lokið. Þau sem ekki náðu að forskrá sig geta skráð sig á skráningarhátíð í Laugardalshöll. 

Skráningarhátíð Reykjavíkurmaraþons Íslandsbanka verður haldin í Laugardalshöll fimmtudaginn 21.ágúst og föstudaginn 22.ágúst. Afgreiðsla fer fram frá klukkan 14:00 til 19:00 báða dagana. Á skráningarhátíðinni fá skráðir þátttakendur afhend hlaupagögn sín en einnig verður hægt að skrá sig á staðnum. Þá munu ýmsir aðilar kynna heilsutengda starfsemi og vörur ásamt því að skemmtilegir og fræðandi fyrirlestrar verða í boði. 

Smelltu hér til að finna nánari upplýsingar um skráningarhátíðina.

AH-2012-104 litil

Um Íþróttabandalag Reykjavíkur

Íþróttabandalag Reykjavíkur (ÍBR) var stofnað 1944 og eru samtök íþróttafélaganna í Reykjavík. Árlega hefur Íþróttabandalagið umsjón með sex stórum íþróttaviðburðum: Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka í ágúst, Laugavegshlaupið í júlí, WOW Tour of Reykjavik og Miðnæturhlaup Suzuki í júní, WOW Northern Lights Run í febrúar og WOW Reykjavik International Games í janúar.