Heim flag

Skráning er hafin

Skráning í Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka 2018 sem fram fer í 35.sinn þann 18.ágúst er hafin hér á marathon.is.

Fjórar vegalengdir eru í boði og því ættu allir aldurshópar og öll getustig að geta fundið eitthvað við sitt hæfi:

Maraþon (42,2 km)
Hálfmaraþon (21,1 km)
10 km hlaup
Skemmtiskokk

Hlauparar eru hvattir til að skrá sig snemma því þátttökugjaldið hækkar eftir því sem nær dregur hlaupi. Síðasti frestur til að skrá sig á lægsta verðinu er 15.maí.

Smelltu á rauða „skráðu þig í næsta hlaup" hnappinn hér til hægri til að skrá þig.

Til þess að sjá lista yfir skráða þátttakendur gertur þú smellt hér.

Áheitasöfnun hlaupsins á hlaupastyrkur.is hefur einnig verið opnuð. Þar geta allir skráðir hlauparar safnað áheitum til styrktar góðum málefnum. Hér geta skráðir hlauparar stofnað aðgang og valið sér góðgerðafélag. Upplýsingar um skráningu góðgerðafélaga má finna hér.

rm2014

20% afsláttur hjá Adidas

Adidas býður öllum þátttakendum í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka 2017 20% afslátt af hlaupafatnaði og hlaupaskóm á adidas.is. Afsláttarkóðinn er RM2017 og gildir hann út ágúst (ATH þú þarft að vera innskráð/ur til að nota hann). Hlaupaskórnir frá Adidas eru þekktir fyrir "boostið" í sólanum sem harðnar ekki við kaldar aðstæður og er því tilvalið fyrir þá sem ætla að halda áfram að hlaupa í vetur.

Hér sérðu yfirlit yfir hlaupaskóna frá Adidas:

Ultraboost 
 • Sokkaskór
 • 100% boost í sólanum
 • 10mm „drop“ frá hæl niður í tá
 • Hentar vel í lengri hlaup, og er frábær í göngutúra og til daglegra nota.
Ultraboost ST 
 • Innanfótastyrktur
 • 100% boost í sólanum
 • 10mm „drop“ frá hæl niður í tá
 • Hentar vel í lengri hlaup, og er frábær í göngutúra og til daglegra nota.
Energy boost 
 • 80% boost í sólanum
 • 10mm „drop“ frá hæl niður í tá
 • Hentar vel í öll hlaup, heldur vel að fæti.
Supernova
 • 80% boost í sólanum
 • 10mm „drop“ frá hæl niður í tá
 • Góður íþróttaskór, hentar í hlaup og rækt.
Supernova ST
 • 80% boost í sólanum
 • 10mm „drop“ frá hæl niður í tá
 • Góður íþróttaskór, hentar í hlaup og rækt.
Adios
 • 80% boost
 • 10mm „drop“ frá hæl niður í tá
 • Adios er sá skór sem hefur unnið flest maraþon í heiminum
 • Léttur keppnis skór, hentar í hlaup og rækt.

 

 39A9346b

Áheitamet á hlaupastyrkur.is

Áheitasöfnun Reykjavíkurmaraþons Íslandsbanka lauk á miðnætti í gær á hlaupastyrkur.is. Rúmlega 117 milljónir króna söfnuðust til 152 góðgerðarfélaga. Þetta er um 20% aukning frá því í fyrra þegar rúmlega 97 milljónir króna söfnuðust. Frá því áheitasöfnun Reykjavíkurmaraþons Íslandsbanka hófst árið 2006 hafa um 663 milljónir safnast til góðra málefna.

Góðgerðafélögin fá áheitin greidd til sín í lok október þegar allar greiðslur frá korta- og símafyrirtækjum hafa borist.

Skráðir þátttakendur í hlaupið í ár voru 14.390 og söfnuðu 4.649 þeirra áheitum á hlaupastyrkur.is. Erlendir hlauparar voru um 4000 talsins frá 87 löndum og tóku tæplega 260 þeirra þátt í söfnuninni.

Góðgerðafélögin senda hlaupurum og þeim sem hétu á hlaupara bestu þakkir fyrir stuðninginn.

hlaupastyrkur-isl-2017-8-22

Tilkynning frá Íþróttabandalagi Reykjavíkur

Í ljósi umræðu um Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka og vefinn hlaupastyrkur.is vill Íþróttabandalag Reykjavíkur koma eftirfarandi upplýsingum á framfæri:

Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka er einn stærsti íþróttaviðburður sem haldinn er á Íslandi á hverju ári. Laugardaginn 19.ágúst 2017 fór hlaupið fram í 34.sinn og tóku rúmlega fjórtán þúsund manns á öllum aldri þátt.

Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka er rekið af Íþróttabandalagi Reykjavíkur sem eru samtök íþróttafélaganna í Reykjavík. Þátttökugjöld fara í kostnað við að halda hlaupið sem að stærstum hluta er launakostnaður og kaup á ýmsum búnaði og aðföngum. Ef hagnaður verður af hlaupinu rennur hann til íþróttafélaganna í Reykjavík í gegnum sjóð sem þau geta sótt um styrki í. Fulltrúar íþróttafélaganna starfa einnig við hlaupið sem sjálfboðaliðar fyrir sín félög en maraþonið greiðir félögunum fyrir þeirra vinnuframlag. Með því að taka þátt í hlaupinu eru þátttakendur því líka að styrkja íþróttafélögin.

Söfnun til góðra málefna hefur verið hluti af Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka í um 10 ára skeið. Alla tíð hefur verið tekið af söfnunarfé til að standa undir hluta af kostnaði sem Íþróttabandalag Reykjavíkur hefur við söfnunina, eins lítið og mögulegt er eða 5-7% hverju sinni. Í samkomulagi milli Íþróttabandalags Reykjavíkur og góðgerðafélaganna kemur fram að ÍBR hafi rétt til að taka allt að 10% í kostnað. Kostnaður við söfnunina er fólgin í vinnu við tölvukerfið sem hýsir söfnunina, vinnulaunum starfsfólks sem kemur að verkefninu og færslugjöldum greiðslukorta. Smellið hér til að finna yfirlit yfir hver kostnaðurinn við söfnunina hefur verið undanfarin 5 ár.

Áheitasöfnunin hefur farið fram á vefnum hlaupastyrkur.is síðan árið 2010. Á hverju ári skrá meira en 100 góðgerðafélög sig til þátttöku í söfnuninni og er þetta stærsta söfnun margra þeirra á hverju ári. Eftir því sem við komumst næst eru fáar safnanir og líklega engar af þessari stærðargráðu sem kosta félögin sem safna jafn lítið og áheitasöfnun Reykjavíkurmaraþons Íslandsbanka.

Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka á marga góða samstarfsaðila sem koma að hlaupinu með ýmsum hætti. Íslandsbanki er þeirra stærstur og er hans hlutverk í samstarfinu meðal annars að kynna viðburðinn innanlands. Einnig hefur bankinn komið með veglegum hætti að áheitasöfnunni t.d. gaf Íslandsbanki hlaupinu vefinn hlaupastyrkur.is árið 2010, hefur greitt hluta af kostnaði við uppfærslur á vefnum og alla markaðssetningu á honum. Það ber því að þakka Íslandsbanka fyrir þeirra mikilvæga framlag við þessa fjáröflun góðgerðarfélaganna og gera það mögulegt að halda kostnaði við söfnunina eins lágum og raun ber vitni. Við fögnum því að Íslandsbanki ætli að leggja söfnuninni enn frekar lið og greiða allan kostnað sem fellur til við söfnunina.

start-minni

Vel heppnað hlaup

Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka fór fram í 34.sinn í dag og gekk vel. Rúmlega 14 þúsund manns tóku þátt í fimm vegalengdum. Veðrið lék við hlaupara í dag sem voru fjölmargir að bæta sinn besta árangur.

Smelltu hér til að skoða heildarúrslit

Myndir af gleði dagsins eru komnar á Facebook og Instagram og munu fleiri bætast við á næstu dögum.

Áheitasöfnun Reykjavíkurmaraþons Íslandsbanka er enn í fullum gangi á hlaupastyrkur.is og sjálfsagt eiga einhverjir eftir að verðlauna sitt fólk fyrir góðan árangur í dag með viðbótar áheitum. Hægt verður að heita á hlaupara til miðnættis á mánudag 21.ágúst.

IMG 20170819 090510-minni

Hlaupdagur - helstu upplýsingar

Laugardaginn 19.ágúst munu um 14 þúsund manns taka þátt í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka 2017 sem í ár fer fram í 34.sinn.

Við vonum að allir, bæði þátttakendur og áhorfendur, muni eiga góðan dag. Eftirfarandi eru slóðir á upplýsingar sem flestir eru að leita eftir á hlaupdag.

Dagskrá dagsins

Góðir hvatningarstaðir

Truflun á umferð

Úrslitaþjónusta

Kort af hlaupaleiðum

Samgöngur - menningarnott.is

Upplýsingamiðstöð hlaupsins er í Menntaskólanum í Reykjavík á hlaupdag og er opið frá kl.7. Þar geta hlauparar sem þurfa aðstoð með skráningarmál o.fl. fengið úrslausn sinna mála.

Skráning og afhending gagna fyrir þátttakendur í Krakkamaraþoni fer fram í tjaldi í suður enda Hljómskálagarðsins frá kl.12:30.

rm2014

 

Um Íþróttabandalag Reykjavíkur

Íþróttabandalag Reykjavíkur (ÍBR) var stofnað 1944 og eru samtök íþróttafélaganna í Reykjavík. Árlega hefur Íþróttabandalagið umsjón með sex stórum íþróttaviðburðum: Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka í ágúst, Laugavegshlaupið í júlí, WOW Tour of Reykjavik og Miðnæturhlaup Suzuki í júní, WOW Northern Lights Run í febrúar og WOW Reykjavik International Games í janúar.