Heim flag

  • Laugavegshlaupið 2019

    Laugavegshlaupið fer fram í 23.sinn laugardaginn 13.júlí 2019. Skráning í hlaupið opnar 11.janúar 2019 og líkur 30.júní nema fullt verði í hlaupið fyrir þann tíma. Upplýsingar um verð, skilmála o.fl. verða aðgengilegar í byrjun janúar 2018. Er Laugavegshlaupið fyrir þig?
  • Krefjandi hlaup

    Mjög mikilvægt er að allir þátttakendur í Laugavegshlaupinu undirbúi sig vel fyrir þá miklu áskorun sem hlaupið er. Smellið hér til að finna upplýsingar um það sem hlauparar ættu að hafa í huga þegar þeir undirbúa sig fyrir þátttöku í hlaupinu.. 
  • Laugavegshlaupið

    Laugavegshlaupið er 55 km utanvegahlaup en Laugavegurinn tengir saman Landmannalaugar og Þórsmörk á sunnanverðu hálendi Íslands, tvær sannkallaðar náttúruperlur. Göngugarpar eru venjulega 4 daga á leið sinni um Laugaveginn en hröðustu hlaupararnir fara leiðina á 4-5 klukkustundum. 

Laugavegshlaupi ekki aflýst

Eftir gaumgæfilega íhugun á stöðu mála hefur stjórn Reykjavíkurmaraþons/ Laugavegshlaups komist að þeirri niðurstöðu að stefna að framkvæmd Laugavegshlaupsins 17. júlí 2010.

Skoðað hefur verið að undanförnu hvort hægt sé að halda hlaupið og samhliða kannað með aðrar leiðir. Við höfum fundið fyrir því að margir skráðra þátttakenda í Laugvegshlaupinu 2010 vilji frekar hlaupa þá leið en ekki einhverja aðra.

Starfsmenn Reykjavíkurmaraþons/Laugavegshlaups voru í Þórsmörk og á hluta leiðarinnar 15. júní. Aðstæður þar voru taldar það góðar að útlit sé fyrir að hægt sé að halda hlaupið. Það hefur rignt lítillega en nóg til þess að binda lítillega efsta hluta öskunnar. Þar sem askan er þykkust (næst Þórsmörk) er viðbúið að fínasti hluti hennar rjúki upp úr stígnum í þurrki þar sem hlauparar fara um. Mörkin er falleg eins og ávallt en nokkuð óhrein á að líta. Einnig hefur verið aflað upplýsinga um stöðu mála á leiðinni og þar er um að ræða lítilsháttar öskulag. Það er samdóma álit jarðvísindamanna og fleiri að ástandið geri ekki annað en batnað eftir því sem tíminn líður.

EN! Það hefur alltaf verið stórt EN í Laugavegshlaupi. Þetta er eitt stórt ævintýri á fjöllum. Við höfum alltaf átt á hættu vonskuveður og líka fengið að glíma við það. Það er partur af Íslandi, það er allra veðra von og ekkert öruggt með tilliti til veðurs og náttúruafla. Núna erum við að bæta einum nýjum óvissuþætti við sem er öskufok sem ekki er vitað hvernig leggst í fólk. Það liggur þó fyrir að það er ekki æskilegt fyrir þá sem eru veikir fyrir í öndunarfærum. Sjá nánar frétt frá sóttvarnalækni.

Að okkar mati er skilgreiningin á því hvort Laugavegur er fær að ekki sé mikið hvassviðri á hlaupdegi, þurrkur þann dag og dagana á undan. Þá skiptir einnig höfuðmáli, eins og áður, að starfsmenn hlaupsins geti sinnt öryggisgæslu annarri þjónustu sem til þarf.

Við komum til með að meta stöðuna reglulega með því að vera í sambandi við skálverði í öllum skálum á Laugaveginum og senda okkar fulltrúa í nokkrar ferðir fram að hlaupi á hlaupaleiðina.

Nú þarf hver og einn skráður þátttakandi að meta fyrir sig hvað hann vill gera. Eins og áður er hægt að segja sig úr hlaupinu þangað til 1. júlí og fá þá 50% af þátttökugjaldi til baka. Þeir sem gera það ekki eru þar með enn skráðir í hlaupið og taka þá þátt í því á þeim forsendum sem hér hafa verið tíundaðar á undan.

Einhverjir hafa spurt um það hvort að hægt verði að lofa öruggu plássi á næsta ári til handa þeim sem hætta við þátttöku. Því er til að svara að ekki er gert ráð fyrir því. Aftur á móti liggur fyrir að verði hlaupi aflýst þá munu þeir sem skráðir eru hafa forgang að þátttöku að ári.

Aska á Laugaveginum

Eins og flestum er kunnugt féll talsverð aska frá eldgosinu í Eyjafjallajökli á hlaupaleið Laugavegsins. Öskulag þekur alla leiðina frá Landmannlaugum að Emstrum og í Húsadal. Ekki hefur rignt á svæðinu eins og vonast var til. Þrátt fyrir að það liggi ekki fyrir hvaða áhrif aska hafi nákvæmlega á öndunarfæri og heilsu eru allir sammála sem hafa lent í henni að þau séu slæm. Verið er að meta ástand á svæðinu öllu þessa dagana. Ef ástand breytist ekki næstu daga sjáum við fram á að þurfa að aflýsa Laugavegshlaupinu.

Þetta þarf þó ekki að þýða að margra mánaða þjálfun sé til einskis. Ný hlaupaleið er í undirbúningi fyrir skráða þátttakendur Laugavegshlaups 2010. Leiðin er ennþá í skoðun og er verið að leita leyfis hjá landeigendum og þeim sem eiga hlut að máli.

Ákvörðun mótshaldara um hvort Laugavegshlaupi verði aflýst verður tekin í næstu viku og þá vonandi um leið, verður hægt að upplýsa um varaleiðina. Ef Laugavegshlaupi verður aflýst þarf hver og einn þátttakandi að ákveða hvað hann vill gera og svara því hvort hann vilji vera þátttakandi á nýrri leið eða hætta alfarið við.

Í skilmálum sem hlauparar samþykkja við skráningu í Laugavegshlaupið segir að ef mótshaldari felli niður hlaupið vegna náttúruhamfara, sem ástand okkar í dag flokkast undir, er ekki skylt að endurgreiða neitt. Þrátt fyrir það höfum við ákveðið að koma til móts við skráða þátttakendur eins og kostur er og endurgreiða 50% af þátttökugjaldi til þeirra sem skrá sig úr hlaupinu innan tilskilins tíma, burtséð frá reglum um náttúruhamfarir.

Næsta tilkynning um stöðu mála berst 16. júní næstkomandi.

Um Íþróttabandalag Reykjavíkur

Íþróttabandalag Reykjavíkur (ÍBR) var stofnað 1944 og eru samtök íþróttafélaganna í Reykjavík. Árlega hefur Íþróttabandalagið umsjón með sex stórum íþróttaviðburðum: Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka í ágúst, Laugavegshlaupið í júlí, WOW Tour of Reykjavik og Miðnæturhlaup Suzuki í júní, WOW Northern Lights Run í febrúar og WOW Reykjavik International Games í janúar.