Heim flag

Tímatakmörk

Eins og fram kemur í reglum hlaupsins þurfa þeir hlauparar sem koma að skála Ferðafélags Íslands í Álftavatni (22 km) eftir meira en 4 klukkutíma eða í Emstrur (38 km) eftir meira en 6:15 klukkutíma að hætta í hlaupinu. Þessi regla á við um alla þátttakendur og er ekki hægt að semja við starfsmenn á staðnum um aðra kosti. Starfsmenn hlaupsins leggja ekki mat á stöðu hvers og eins. Það er ein regla sem gildir fyrir alla og það er tíminn 4 klukkustundir og 6:15 klukkustundir.

Þátttakendum sem ná ekki tímamörkum hefur fjölgað og margir þeirra virðast ekki hafa kynnt sér regluna um tímamörkin. Þess vegna skal það ítrekað að þátttakendur undirbúi sig með það í huga og lesi sér til um reglur og skipulag hlaupsins. Það er mikilvægt að hver og einn viti hvernig tímatakmörkum er háttað og hvað tekur við í kjölfarið.

Aðstæður og skipulag í Álftavatni og í Emstrum eru eftirfarandi:

 • Af öryggisástæðum eru þátttakendur sem ná ekki tímamörkum eða hætta keppni á ábyrgð mótshaldara og hafa ekki leyfi til að halda áfram á eigin vegum.
 • Aðstæður í Álftavatni og í Emstrum bjóða eingöngu upp á öryggisþjónustu. 
 • Ekki er öruggt með húsaskjól. Það er takmarkað pláss í skálum Ferðafélags Íslands og þeir uppteknir af göngufólki.
 • Starfsmenn skrá niður nafn og hlaupa númer allra þeirra sem eru stöðvaðir og leiðbeina þeim um næstu skref.
 • Það eru ekki þurr föt á staðnum fyrir hlaupara og ekki annar matur en tilheyrir drykkjarstöðvum á staðnum.
 • Þátttakendum verður ekið frá Emstrum á Hvolsvöll og þaðan til Reykjavíkur. Gera má ráð fyrir stoppi og jafnvel bið á Hvolsvelli í nokkrar klukkustundir á leiðinni til Reykjavíkur.
 • Þess skal getið að bið getur orðið á brottför frá Álftavatni og Emstrum og að ferðalagið frá Álftavatni og Emstrum að Hvolsvelli getur tekið 2-3 klst.
 • Þar sem símasamband á milli Emstra og Húsadals er takmarkað berast upplýsingar á milli seinna en ætla má. Starfsmenn í Húsadal reyna eftir fremsta megni að miðla upplýsingum til hlaupafélaga og fjölskyldumeðlima þeirra sem ná ekki tímamörkum.
 • Ekki er hægt að flytja þátttakendur frá Emstrum í Þórsmörk. Það er of tímafrekt. Frá Emstrum á Hvolsvöll tekur 2-3 klst að keyra og frá Hvolsvelli inn í Húsadal tekur 2-3 klst. eftir færð. Þá er klukkan orðin 19-20 og síðasta rúta með þátttakendur úr Húsadal fer kl.20.
 • Farangri þátttakenda sem fara beint frá Emstrum og Álftavatni til Reykjavíkur, verður komið til Reykjavíkur svo framalega að hann hafi verið settur í rútu hlaupsins í Landmannalaugum og merktur með hlaupanúmeri sem tilheyrir hlaupinu.
 • Matur í Húsadal sem keyptur hefur verið af veitingasölu á staðnum er ekki endurgreiddur þeim sem ná ekki tímamörkum.

Sebast-8183

Um Íþróttabandalag Reykjavíkur

Íþróttabandalag Reykjavíkur (ÍBR) var stofnað 1944 og eru samtök íþróttafélaganna í Reykjavík. Árlega hefur Íþróttabandalagið umsjón með sex stórum íþróttaviðburðum: Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka í ágúst, Laugavegshlaupið í júlí, WOW Tour of Reykjavik og Miðnæturhlaup Suzuki í júní, WOW Northern Lights Run í febrúar og WOW Reykjavik International Games í janúar.