Heim flag

Tímataka 2018

floguoklabandSjálfvirk tímataka er í Laugavegshlaupinu í fyrsta skipti núna í ár. Notaður verður tímatökubúnaður frá timataka.net sem samanstendur af mottum í rásmarki, sem hlauparar fara yfir í byrjun og enda hlaups og flögu (lítill hvítur plasthringur). Flagan er á ökklabandi sem hver og einn hlaupari verður að festa vel á ökklann, best er að hafa ökklabandið utan á sokknum og það má ekki vera hærra en 40 cm frá jörðu. Flagan geymir númer sem tengt er viðkomandi hlaupara og tímatakan hefst þegar farið er yfir motturnar í byrjun hlaups og lýkur þegar hlaupari fer yfir hana aftur í marki.

TÍMATAKAN

Tekinn er tími frá því að startskot hvers ráshóps ríður af, svokallaður byssutími. Byssutími er sá tími sem gildir til úrslita í hlaupinu en flögutími gefur nákvæman persónulegan árangur hlaupara, óháð því hve aftarlega í ráshópnum hann var við ræsingu. Byssutíminn í hverjum ráshóp er einnig notaður þegar hlauparar eru stoppaðir vegna tímatakmarka í Álftavatni og Emstrum. Allir fá því jafnlangan tíma til að ná tímatakmörkunum óháð í hvaða ráshópi þeir eru.

Þar sem hlaupið verður ræst í nokkrum ráshópum sem ræstir eru með fimm mínútna millibili þarf röð þátttakenda í mark ekki endilega að endurspegla nákvæmlega röð þeirra í úrslitum. Klukkan í markinu sýnir tímann sem liðinn er frá því að fyrsti ráshópurinn hóf hlaupið. Nánari upplýsingar um ráshópa er að finna hér

Millitímamottur verða staðsettar í Álftavatni, 22 km og í Emstrum, 38 km. Þar fá keppendur skráðan millitíma svo framarlega sem þeir stíga á mottuna. Stefnt er að því að vera með lifandi úrslit á vefnum en vegna óstöðugs gsm sambands á svæðinu er ekki hægt að lofa því.

ÖKKLABANDINU OG FLÖGUNNI SKILAÐ

Allir þátttakendur fá flöguna og ökklabandið á leigu, sem er innifalið í þátttökugjaldinu. Að hlaupi loknu þarf hver og einn þátttakandi að skila ökklabandinu með flögunni og afhenda hana starfsmönnum hlaupsins sem staðsettir verða í sjúkratjaldinu. Flagan er virk í þetta eina hlaup. Hægt er að virkja flöguna aftur og þess vegna er verðgildi í henni fyrir hlauphaldara. ÞÁTTTAKENDUR ERU BEÐNIR AÐ VIRÐA SKILAÁKVÆÐI vegna umhverfissjónarmiða og kostnaðar. Flagan ásamt hlaupanúmeri hefur verið skráð á nafn þátttakanda og gildir eingöngu fyrir þann einstakling. Skili viðkomandi ekki flögunni til starfsmanna getur hann fengið bakreikning.

floguskil 

Um Íþróttabandalag Reykjavíkur

Íþróttabandalag Reykjavíkur (ÍBR) var stofnað 1944 og eru samtök íþróttafélaganna í Reykjavík. Árlega hefur Íþróttabandalagið umsjón með sex stórum íþróttaviðburðum: Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka í ágúst, Laugavegshlaupið í júlí, WOW Tour of Reykjavik og Miðnæturhlaup Suzuki í júní, WOW Northern Lights Run í febrúar og WOW Reykjavik International Games í janúar.