Articles

Fjölmennt á Laugaveginum um helgina

Þrettánda Laugavegshlaupið verður haldið laugardaginn 18.júlí næstkomandi. Til keppni eru skráðir 342 hlauparar frá 15 löndum, 81 kona og 260 karlar, sem er þátttökumet.  Alls luku 215 hlauparar Laugavegshlaupinu á síðasta ár sem var líka met. Það er því mikill áhugi á hlaupinu um þessar mundir.

Hlaupið hefst í Landmannlaugum og lýkur í Húsadal í Þórsmörk. Eins og margir vita er Laugavegurinn er ein fjölfarnasta og vinsælasta gönguleiðin um íslensk öræfi. Venjan er að ganga leiðina á fjórum dögum en met hlauptími á þessari 55 km leið í Laugavegshlaupi er 4 klukkustundir og 39 mínútur í karlaflokki og 5 klukkustundir og 31 mínúta í kvennaflokki.

Þátttakendur þurfa að sækja keppnisgögn á skrifstofu Reykjavíkurmaraþons að engjavegi 6 í Laugardal á fimmtudag eða föstudag milli kl. 12 og 17. Smellið hér til að skoða upplýsingabækling sem þátttakendur þurfa að kynna sér fyrir hlaupið.